Nýliði í forritun
Maulið er komið á þann stað að geta lagt aukna áherslu á þróun og nú neyðumst við til að leita eftir forritunarkunnáttu utan stórfjölskyldu stofnanda! Sá verður fjórði starfsmaður í þróunardeild og sjöundi starfsmaður fyrirtækisins.
Uppfært: Búið er að ráða í stöðuna og við þökkum öllum sem sendu inn umsóknir.
Ef þú hræðist ekki að taka þátt í rússíbanareið sem smáfyrirtæki í vexti og nýsmíði býður upp á, fellur þú inn í hópinn. Við nærumst á óreiðu og óvissu! Stöku sinnum náum við tökum á málunum, en lendum sjaldan í því að láta okkur leiðast þar sem við látum alltaf reyna á mörkin og komumst að því hvað við getum afrekað.
Við bjóðum upp á framúrstefnulegt og nýstárlegt tæknilegt umhverfi þar sem allur hugbúnaður í notkun er keyrður án miðlara (e. serverless). Þú munt læra heilan helling á Amazon AWS og Google skýjaþjónustur, líka gera fullt af mistökum og vitleysum en skapa gullmola þess á milli!
Verkefnin verða mjög fjölbreytt, allt frá því að plástra verkflæði í töflureiknum í að þróa og hanna vélnámsmódel. Vefforritun verður í boði, bæði fram- og bakendi.
Þú þarft ekki að hafa reynslu, en frekar að hafa mikinn áhuga á að öðlast hana. Við lofum að starfið verður góður skóli, báðir stofnendur hafa langa reynslu af hugbúnaðarþróun og vanir að taka á móti nýliðum í starfi. Við gerum aðeins raunhæfar kröfur til umsækjenda og vitum að náminu líkur ekki eftir skóla. Þess vegna verður meðal fyrstu verkefna að taka námskeið í AWS skýjaþjónustum.
Sendu okkur línu á starf@maul.is með ferilskrá og segðu okkur af hverju þig langar að vinna með okkur þrátt fyrir starfslýsinguna hér ofar. Okkur er mjög annt um að þú fallir vel inn í hópinn svo það væri gaman að fá nokkur orð um þig persónulega, hvert hugurinn stefnir og hvar og metnaðurinn liggur.